Lögreglumenn á ferð um Stokkseyri töldu sig finna lykt af kannabisræktun á ferð sinni um þorpið síðastliðinn föstudag.
Fíkniefnaleitarhundurinn Buster var sóttur og leiddi hann lögreglumenn að tilteknu húsi í þorpinu þar sem knúið var dyra og heimilaði húsráðandi leit þar.
Við leitina fundust kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar, allt frá því að vera um 5 cm á hæð og upp í 1,5 m háar. Plönturnar reyndust í heild á annað hundraðið en af þeim voru 48 um 70 sm eða stærri.
Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að einn aðili var stöðvaður á Selfossi um miðjan dag í gær. Hann reyndist við athugun hafa í fórum sínum 2 grömm af kannabisefnum sem hald var lagt á.