Kristrún Elsa Harðardóttir, ungur lögfræðingur úr Þorlákshöfn, setti nýlega á fót fyrirtækið Íslenska skjalagerðin, en starfsemin fer fram eingöngu á netinu, á vefsvæðinu isskjal.is.
Kristrún Elsa, sem útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2010 fékk hugmyndina að vefsíðunni síðsumars, eftir að fólk í kringum hana hafði leitað til hennar vegna hinna ýmsu löggerninga.
„Fólk var að biðja mig um að útbúa fyrir sig kaupsamninga og afsöl vegna fasteignakaupa,” segir hún. Er þetta yfirleitt í tilfellum þar sem eignin er seld án aðkomu fasteignasölu. „Ég hef fengið þær skýringar á þessum beiðnum að fasteignasölur taki of háa þóknun fyrir það eingöngu að útbúa skjölin,” segir Kristrún.
„Þegar ég fór að hugsa þetta betur fannst mér liggja beinast við að búa til vefsíðu í kringum þetta svo að þjónustan yrði aðgengileg fyrir almenning. Þá datt mér í hug fyrst ég var nú að fara í vinnu við að búa til vefsíðu og allt sem því fylgir að bjóða einnig upp á fleiri löggerninga en eingöngu kaupsamninga og afsöl. Því ákvað ég að bjóða einnig upp á löggerninga vegna sifjamála auk umboða og ráðningarsamninga,” bætir hún við.
Endanleg verðskrá
Kristrún segist hafa tilfinningu fyrir því að þörf sé fyrir svona þjónustu. Í ljósi aðstæðna í samfélaginu sé fólk kannski ekki tilbúið að borga háar upphæðir fyrir þjónustu af þessu tagi. „Ég er með verðskrá á netinu sem inniheldur verð fyrir öll þau skjöl sem Íslenska skjalagerðin vinnur. Það verð er allt endanlegt þannig að það er enginn kostnaður sem kemur í bakið á fólki. Þannig reyni ég að halda kostnaðinum í algjöru lágmarki með því að hafa þjónustuna eingöngu á netinu og þá löggerninga sem eru í boði tiltölulega einfalda.”