Íslendingar verða æ áræðnari að prófa nýjungar í tengslum við garðrækt og ein sú óvenjulegasta er hunangsframleiðsla með aðstoð býflugna.
Sunnlendingar eru engir eftirbátar landa sinna í býflugnarækt og nú í sumar eru fimmtán aðilar á Suðurlandi með suðandi býflugur í görðunum hjá sér en alls eru 41 býflugnaræktandi á öllu landinu.
Blaðamaður Sunnlenska hitti Egil Rafn Sigurgeirsson, formann Býs, félagsskapar býflugnaræktenda á Íslandi, þegar hann vitjaði um tvö býflugnabú á Húsatóftum á Skeiðum, sem Valgerður Auðunsdóttir, Guðjón Vigfússon og Íris Guðjónsdóttir fengu um miðjan júní en þau voru að hefja býflugnarækt.
Með Agli í för voru líka þær Ásthildur Magnúsdóttir og Herborg Pálsdóttir, báðar frá Selfossi, og nýgræðingar í býflugnarækt líkt og húsráðendur á Húsatóftum. Þær eru mjög spenntar fyrir býflugnaræktinni en aðspurðar hvort ekki væri erfitt að vera með bú í þéttbýli sögðu þær svo alls ekki vera. Tíu ára reynsla væri af slíku í Reykjavík án nokkurra kvartana og þær hefðu gætt þess að kynna fyrirætlanir vel fyrir nágrönnum sínum.
Mikilvægt ð halda hita á drottningunni
Búin á Húsatóftum voru iðandi af lífi en Egill sagði virkni þeirra þó ekki vera næga ennþá. Hvert bú inniheldur 15.000 býflugnaþernur og eina drottningu þegar það kemur til landsins og mikilvægt er að býflugurnar byrji sem fyrst að safna frjókornum úr nágrenninu svo drottningin verði dugleg að verpa.
Erlendis getur býflugnabú þrefaldað stærð sína en Egill segir að við íslenskar aðstæður sé óraunhæft að gera ráð fyrir því að búin innihaldi meira en 30.000 flugur í lok sumars. Fjöldi flugnanna skiptir miklu máli því að yfir veturinn safnast þær utan um drottinguna til að halda 25-30 stiga hita í miðju búinu. Öllu máli skiptir að drottningin lifi af veturinn því að hún er eina flugan sem getur verpt nýjum eggjum.
Verði sjálfbær framleiðandi
Egill hefur mikla reynslu sem býflugnabóndi. „Ég byrjaði árið 1988 að rækta býflugur úti í Svíþjóð,” segir hann, “og gerði það næstu tíu árin eða þar til ég kom heim til Íslandi og hélt bara áfram að rækta hér.”
Það lifa ekki öll bú af veturinn. „Í dag þurfum við að flytja reglulega inn býflugnabú að utan en markmiðið er að landið verði sjálfbær framleiðandi býflugna og að markaðurinn skili hagnaði,” segir Egill.
Vernharður Gunnarsson, garðplöntuframleiðandi í Storð, og kona hans Björg Árnadóttir, hafa ræktað býflugur í rúmt ár í Laugarási í Biskupstungum. Þau segja sölu innlends hunangs ekki standa undir startkostnaði og vinnu. Vernharður segir býflugnabú þurfa um 30 kg af sykri að hausti ásamt frjókökum í fæðu og það þarf að gefa flugunum mikið að borða ekki síst þegar vorið er jafn kalt og núna.
„Þetta er fyrst og fremst áhugamál,“ segir Vernharður og Björg tekur undir það með honum. „Ég var ekkert alltof hrifin af þessum býflugum þegar Venni var að byrja í þessu en núna hef ég gaman af þessu.“
/SkS