Í Skaftárhreppi er hafinn undirbúningur vegna byggðaþróunarverkefnis á vegum Byggðastofnunar, sem unnið verður í samstarfi við Skaftárhrepp, SASS , Atvinnuþróun SASS og íbúa sveitarfélagsins.
Þróun byggðar í fámennu sveitarfélagi eins og Skaftárhreppi ræðst af ákvörðunum margra aðila. Þar má nefna stefnu ríkisstjórnar, ákvarðanir sveitarstjórnar, stofnana og fyrirtækja sem sinna þjónustu í hreppnum og íbúa. Með þessu verkefni er gerð tilraun til að leiða þessa aðila saman, ræða málefni Skaftárhrepps á breiðum grunni og leita leiða til að renna sterkari stoðum undir búsetu.
Skaftárhreppur er eitt fjögurra byggðarlaga þar sem unnið verður með þessum hætti. Byrjað var á Raufarhöfn þar sem haldið var íbúaþing í janúar síðastliðnum og er nú verið að fylgja skilaboðum þess eftir. Fyrstu skrefin þykja lofa góðu. Hinir staðirnir eru Breiðdalsvík og Bíldudalur. Allt eru þetta byggðarlög sem hafa átt við viðvarandi fólksfækkun að etja, þó ástæður og staða séu ólík á hverjum stað.
Af hálfu Byggðastofnunar er verkefnið leitt af stjórnarformanni, Þóroddi Bjarnasyni, Aðalsteini Þorsteinssyni forstjóra og Sigríði K. Þorgrímsdóttur á þróunarsviði. Stofnunin hefur fengið Sigurborgu Kr. Hannesdóttur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Ildi, til liðs við sig, en hún hefur sérhæft sig í aðferðum til þátttöku almennings.
Þann 15. maí funduðu fulltrúar Byggðastofnunar með hreppsnefnd og sveitarstjóra og í kjölfar þess fundar var haldinn fyrsti fundur með verkefnisstjórn. Í henni sitja, auk fulltrúa Byggðastofnunar, Eygló Kristjánsdóttir sveitarstjóri, Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri SASS, Fanney B. Sveinsdóttir atvinnuráðgjafi á Höfn og Auðbjörg B. Bjarnadóttir, sem er fulltrúi íbúa í verkefnisstjórninni.
Byggðastofnun verður tengiliður við stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki og mun upplýsa þau um verkefnið og um skilaboð íbúanna. Atvinnuþróun SASS mun veita stuðning við þróun hugmynda um atvinnuuppbyggingu og SASS veitir verkefninu jafnframt bakland.
Byrjað verður á opnum íbúafundi í október, þar sem verkefnið verður kynnt og kallað eftir umræðu um væntingar íbúa Skaftárhrepps um árangur. Í nóvember er stefnt að tveggja daga íbúaþingi, þar sem þátttakendur móta sjálfir dagskrána. Í framhaldi af því mun Byggðastofnun og þeir sem eiga aðild að verkefnisstjórn vinna frekar úr skilaboðum þingsins og um 6 – 8 vikum síðar verða haldnir fundir um stöðu mála og eftirfylgni.
Það er von þeirra sem að verkefninu standa að íbúar Skaftárhrepps taki virkan þátt í verkefninu, enda þurfa allar lausnir til eflingar byggðar á svæðinu að vera í takti við samfélagið, ef þær eiga að skila árangri.