Byggðaþróunarfulltrúar á Suðurlandi hittust á dögunum til vinnufundar ásamt starfsmönnum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Var fundað í Skálholti með það að markmiði að styrkja samstarfið, efla tengsl og rýna hlutverk byggðaþróunarfulltrúa með sérstakri áherslu á leiðtogafærni og ráðgjafarþjónustu.
Til liðs við hópinn var fenginn leiðtogaþjálfarinn, lögfræðingurinn og viðskiptafræðingurinn Elmar Hallgríms Hallgrímsson sem leiddi hópinn í gegnum þjálfun í leiðtogafærni. Þegar hlutverk byggðaþróunarfulltrúa eru rýnd, sem snúa meðal annars að því hvetja fólk áfram til góðra verka og að tengja saman einstaklinga, fyrirtæki og verkefni, er ljóst að leiðtogafærni getur komið sér afar vel. Elmar mun fylgja þjálfuninni eftir með því að koma inn á vikulega fundi byggðaþróunarfulltrúa í nokkur skipti.
Alls eru starfandi byggðaþróunarfulltrúar á sex atvinnusóknarsvæðum af sjö á Suðurlandi og sinna þeir meðal annars ráðgjafarþjónustu.
Í lok dags fékk hópurinn að kynnast Uppsveitum Árnessýslu örlítið betur. Hófst það með áhugaverðri kynningu um Skálholt og því næst var haldið í Friðheima þar sem Knútur Rafn Ármann tók á móti hópnum og kynnti framgang fyrirtækis síns.