Bygging þjónustuhúss í Reynisfjöru gengur vel. Um er að ræða 270 fermetra veitingahús með salernum sem á að vera opið allt árið um kring.
Guðni Einarsson í Þórisholti, einn þeirra sem er í félagi sem stendur að byggingunni segir að vonir standi til þess að húsið verði tilbúið í lok maí eða byrjun júní. Hann segir nauðsynlegt að byggja slíka aðstöðu í ljósi þess hversu margir ferðamenn koma nú í fjöruna.
„Í vetur hefur umferðin verið nánast eins og hún var yfir sumartímann fyrir tveimur til þremur árum,“ segir Guðni. Ferðamenn séu á sveimi þarna alla daga, og raunar séu tugir langferðabíla sem stoppi þar á hverjum degi auk allra ferðamanna sem koma á eigin vegum á bílaleigubílum.
„Þessi viðkomustaður er inni í skipulögðum ferðum um suðurströndina sem eru ákaflega vinsælar meðal ferðamanna,“ segir Guðni. „Ein stærsta upplifunin hjá ferðamanninum er að koma og sjá sjóinn og svartan sandinn, enda er sjórinn oft tilkomumikill að sjá,“ segir hann ennfremur.
Auk þess sem þarna verður veitingasala verður salernisaðstaða sem opin verður allan sólarhringinn. Húsið er byggt inn í Reynisfjall, við bílastæðið þar sem ferðamenn stoppa nú. Notast verður við byggingarefni úr fjörunni, þannig verður veðrunarkápan á húsinu úr möl úr fjörunni og hið sama má segja um gólfefnið.