„Vissulega er vont þegar verð lækkar svona mikið, en við höldum okkur við okkar áætlanir,“ segir Ármann Einarsson í Þorlákshöfn aðspurður um hvort fréttir af lækkun á verði minkaskinns að undanförnu hefði áhrif á áætlanir aðila sem hyggjast reisa stærsta minkabú landsins í Ölfusi.
Skinnaverðið hélt áfram að lækka við opnun svokallað júníuppboðs á markaði í Kaupmannahöfn fyrr í vikunni. Stærstur hluti íslenskrar skinnaframleiðslu er seldur á því uppboði. Lækkunin á undanförnum mánuðum nemur meira en fjórðungi og er talið að verð sé nú komið undir framleiðsluverð á Íslandi. Það hækkar við ákveðnar aðstæður, svo sem við launaþenslu og hækkun fóðurverðs. Ármann segir að vissulega verði menn að hafa þetta í huga í tengslum við frekari uppbyggingu búa hér á landi.
„Það eru ennþá nokkrar vikur þar til að gengið verður frá leyfum vegna þess sem við ætlum að byggja í Þorlákshöfn. Við skoðum málið þegar þar að kemur, ég á von á að við hefjum framkvæmdir, en við byrjum ekki ef þetta lækkar niður í einhverjar vitleysu,“ segir Ármann.
Hann segir orðið ólíklegt að framkvæmdir við byggingu fyrsta búsins hefjist í haust. „Það hefur dregist mjög að fá leyfin og því verður væntanlega ekkert hafist handa fyrr en næsta vor,“ segir hann. „Við erum búnir að vinna vel í undirbúningi þessa verkefnis, og kannski er bara best að byrja á botninum,“ segir Ármann.