Stracta ehf og Byggingarfélagið Sandfell munu fljótlega hefja byggingu hótels á Hellu. Búið er að úthluta hótelinu aðstöðu að Gaddstaðaflöt 4 við Suðurlandsveg.
Um er að ræða 112 herbergi í um 3.800 fm húsnæði. Hótelálmurnar verða á einni hæð en veitingaaðstaða og móttaka á tveimur hæðum. Þá verður stór hótelgarður með skúlptúrum og öðru sem prýtt getur slíkan garð.
Hreiðar Hermannsson, eigandi Stracta, segist bjartsýnn á hótelrekstur á þessu svæði. Ætlunin er að opna hótelið næsta vor en samhliða byggingu þess og hönnun fer í gang mikil markaðssetning sem beint verður að erlendum ferðamönnum sem hyggja á ferðir hingað til lands.