Byggingarnefnd Barnaskólans á Stokkseyri hafði ekkert með fjármálahlið framkvæmdanna að gera og verður ekki gerð ábyrg fyrir þeim þætti málsins.
Þetta kom fram í samtali Sunnlenska við Margréti Katrínu Erlingsdóttur, fyrrverandi bæjarfulltrúa og formann nefndarinnar. Eins og greint var frá í Sunnlenska fréttablaðinu er heildarkostnaður við byggingu skólans um 700 milljónir og fór verkið um 50% fram úr áætlun.
Að sögn Margrétar hafði bygginganefndin fyrst og fremst það hlutverk að fylgjast með faglegum þætti framkvæmdanna, yfirfara teikningar og sjá til þess að húsið uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til þess. ,,Bygginganefndin hafði ekki fjárhagslega ábyrgð á verkefninu og við sátum til að mynda enga verkfundi vegna þess,“ segir Margrét og tekur fram að umboð byggingarnefndarinnar hafi runnið út í vor í kjölfar sveitastjórnarkosninga.
,,Það var fullt af fagfólki sem fylgdist með verkþáttum og fjárhagslega hliðin var alltaf á hendi bæjarstjórnar,“ segir Margrét. Vegna fréttar Sunnlenska í síðustu viku um kostnað vegna byggingarinnar sagðist hún vilja benda á að nauðsynlegt væri að taka verðbótaþáttinn með í dæminu en hann hefði vegið þungt í þeim hækkunum sem orðið hefðu á verkinu.
Nýbyggingin á Stokkseyri var vígð sl. föstudag og vakti það athygli að Margrét var ekki viðstödd vígsluna. Í fréttum RÚV kom fram að henni hafi ekki verið boðið á athöfnina.