Ungir Þorlákshafnarbúar, Sjöfn Sæmundsdóttir og Arnar Jónsson, eru að byggja 300 fermetra hesthús sem mun nýtast sem reiðskóli og tamningaaðstaða.
Í húsinu verða tuttugu einshestastíur, en það eru stíur fyrir einungis einn hest hver. Í öðrum enda hesthúsins verður inniaðstaða með speglum þar sem hægt verður að bjóða upp á ásetuæfingar og reiðnámskeið fyrir börn.
Sjöfn lauk á síðasta ári þriggja ára háskólanámi á Hólum og er nú komin með reiðkennararéttindi auk þess að vera alvön tamningamanneskja. Þau Arnar ætla að bjóða upp á reiðnámskeið fyrir alla aldurshópa.
Einnig verður boðið upp á eins til tveggja vikna námskeið fyrir erlenda ferðamenn sem geta þá gist í Þorlákshöfn. Þetta verkefni verður unnið í samstarfi við Jón Arason, föður Arnars, en hann rekur Gistiheimili Jonna. Boðið verður upp á spennandi ferðir um landið ásamt reiðnámskeiði.
Sjöfn leggur metnað í að temja sjálf hestana sem þjálfaðir verða fyrir reiðskólann, þannig getur hún boðið upp á sérþjálfuð hross í kennsluna.
Frá þessu er greint á heimasíðu sveitarfélagsins Ölfuss.