Bykohrafninn lagstur á

Hrafnapar hefur síðustu daga staðið í ströngu við að smíða laup utan á Bykohúsinu við Langholt á Selfossi. Þetta er í annað sinn sem hrafninn verpir í Byko.

Hrafninn kom upp ungum á þessum stað vorið 2012 en lét ekki verða af því í fyrra. Hrafninn er ófeiminn við félagsskap mannsins og á það til að verpa á stöðum sem þessum, sérstaklega á Suðurlandsundirlendinu þar sem hrafnar hafa smíðað laupa í rafmagnsmöstrum, súrheysturnum og jafnvel íbúðarhúsum á Stokkseyri.

Hrafninn lagðist á eggin í byrjun þessarar viku en hann verpir fjórum til sex eggjum í laupinn og koma ungarnir úr eggjunum eftir u.þ.b. þrjár vikur. Þeir yfirgefa hreiðrið svo u.þ.b. fimm vikna gamlir.

Hrafnaparið hefur að vonum vakið mikla athygli enda skemmtilegt að geta fylgst með varpinu svona í alfaraleið.


sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Karlinn vaktar óðalið á meðan kerlingin liggur á. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinSigríður kosin formaður
Næsta greinMarín og Halldór mikilvægust hjá Hamri