Brunavarnir Árnessýslu tóku í dag formlega í notkun nýjan og glæsilegan stigabíl, sem leysir af hólmi um það bil 40 ára gamlan körfubíl BÁ. Má segja að þarna lyfti BÁ bílaflota sínum inn í nútímann.
Bíllinn er af gerðinni Scania og er smíðaður hjá Echelles Riffaud í Frakklandi. DAGA Fire & Rescue ehf í Reykholti í Biskupstungum annaðist innflutninginn. Kominn til landsins kostar bíllinn rúmlega 100 milljónir króna.
Græja stigann á 90 sekúndum
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, segir að nýi bíllinn sé bylting fyrir Brunavarnir Árnessýslu og stórmunur sé á notkunarmöguleikum hans miðað við gamla körfubílinn.
„Það er mikill munur hvað varðar aksturseiginleika og að koma bílnum á staðinn en líka fyrst og fremst hraðinn við að reisa tækið. Þetta er allt orðið tölvustýrt og á meðan menn eru að koma sér fyrir þá er hægt að ýta á einn takka og þá stillir bíllinn sér upp á meðan menn eru að græja aðra hluti. Þennan bíl er hægt að gera björgunarkláran með stigann í efstu stöðu á 90 sekúndum,“ segir Pétur.
Hentar þröngum götum Parísar
Stiginn nær 33 metra upp í loftið í hæstu stöðu og Pétur segir að bíllinn henti fyrir hæstu byggingarnar í sýslunni, svo lengi sem hægt er að komast að þeim.
„Stundum er bílum lagt þannig að við komumst ekki að þeim og þá þarf tækið að geta teygt sig ansi langt. Nýi bíllinn er miklu léttari en sá gamli og nær því að teygja sig lengra til hliðanna. Þetta er nokkuð nettur bíll og sú týpa af bílum sem menn velja sér á þröngum götum Parísar. Þar er ekki eins þröngt hér í Árborg en við teljum að hann muni henta mjög vel hér,“ bætir Pétur við.
Verður meira á ferðinni en sá gamli
Öflugur dælubúnaður er í bílnum og framan á körfunni er fjarstýrður stútur, þannig að einnig er hægt að senda körfuna mannlausa upp og stýra slökkvibúnaðinum af jörðu niðri. Þetta er fjölhæft tæki og Pétur segir að hann muni nýtast við margskonar útköll.
„Eiginleg björgunarstörf á fólki út af efri hæðum eru ekki algeng en þessir bílar eru notaðir við nánast öll slökkvistörf, þar sem þeir komast að. Til dæmis ef mikill eldur kviknar í húsi á einni hæð, þá notum við þessa bíla til þess að hjálpa til við að rjúfa þök og annað. Eins hafa þessir bílar verið notaðir í bílslysum til þess að fá sýn yfir vettvanginn. Gamli bíllinn hefur hentað í miklu færri útköllum af því að hann er hægfara og tekur mikið pláss, þannig að við eigum örugglega eftir að sjá nýja bílinn miklu meira á ferðinni,“ segir Pétur að lokum.