Skógrækt ríkisins fékk Eirík Jónsson frá Gígjarhólskoti til að gera skógarbraut um þéttan skóg í Haukadal með nýstárlegri aðferð í síðustu viku.
Á sjöunda áratug síðustu aldar voru skógar gróðursettir á örfáum stöðum í löndum Skógræktar ríkisins í svokallaðar plógrásir sem gerðar voru með skoskum plógi.
Síðustu ár hefur verið unnið að grisjun þessara skóga, t.d. í Haukadal. Helsta vandamálið við grisjun skóganna sem ræktaðir voru í plógrásum er hversu ógreiðfærir þeir eru. Erfitt hefur verið að komast með tæki inn í skógana til að ná timbrinu sem til fellur út og einnig hefur verið erfitt að ná timbri út með timburspili vegna þess hversu mikla hryggi plógrásirnar mynda.
Í síðustu viku var gerð tilraun á nýrri aðferð þar sem Eiríkur frá Gígjarhólskoti notaði stóran grjótmulningstætara til verksins. Tætarinn hefur hingað til hefur tætt upp malbik og vegi.
Tætarinn virkaði afar vel til að tæta upp rótarstubba og greinar sem settar höfðu verið í brautina og jafna út hryggi í plógrásunum. Eftir stendur kurlblönduð moldarbraut sem segja má að sé fólksbílafær. Tók verkið um eina og hálfa klukkustund.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir í grein á vef Skógræktarinnar að þetta sé mikil bylting í gerð skógarbrauta og verði hún áreiðanlega notuð í meira mæli á næstu árum.