Byrjað er að ferja fólk yfir Múlakvísl en nokkur fjöldi fólks bíður eftir að komast yfir ána í rútur.
Rúta og tveir trukkar eru fyrir austan til að ferja fólk og bíla yfir á vaði.
Útbúin hafa verið plön beggja vegna þar sem hægt er að aka bílum beint á vörubílspall. Bílaflutningar eru einnig að hefjast. Miðað er við að ferja yfir ána til að minnsta kosti 22:00 í kvöld og jafnvel til miðnættis.
Vörubílarnir geta tekið alla venjulega bíla. Fært er fyrir stærri fjórhjóladrifsbíla um Fjallabaksleið nyrðri.
Reynsla á eftir að koma á þennan ferðamáta en að sögn Vegagerðarinnar er júlíumferðin á þessu svæði um 1.000-1.200 bílar á sólarhring. Um 10 mínútur tekur að koma bíl fyrir vaðið þannig að ljóst er að ef umferð verður mikil gæti orðið töluverð bið á því að komast yfir Múlakvísl.
Þó má búast við að hægt verði að anna um 25-35% af venjubundinni umferð með þessum hætti.