Byrjaði fjögurra ára að hella uppá

Carlos Ferrer mun í vikunni blanda kaffidrykk með Lava bjór frá brugghúsinu í Ölvisholti í alþjóðlegri kaffikeppni í London.

Keppnin nefnist Coffee in good spirits, eða Kaffi í góðum vínanda og er hliðarmót við alþjóðakeppni kaffibarþjóna sem hefst í London á morgun. Svo skemmtilega vill til að dóttir Carlos, Ingibjörg Ferrer keppir fyrir hönd Íslands í aðalkeppninni en hún er núverandi Íslandsmeistari. Ekki nóg með það heldur keppir sonur Carlos, Tumi Ferrer, í öðru hliðarmóti í fagsmökkun á kaffi.

„Þessi keppni var sett á laggirnar á sínum tíma til þess að bjarga írska viskíinu frá því að fara út í vitleysu. Þarna eru blandaðir áfengir kaffidrykkir og ég þarf að búa til tvo Irish Coffee og tvo frjálsa drykki,“ segir Carlos sem hefur átta mínútur til að búa til drykkina fjóra.

„Ég má ekki koma með tilbúið kaffi þannig að ég þarf að búa til allt á staðnum og setja það saman. Það krefst mikillar æfingar að ná góðu rennsli í þessu því ég þarf að gera þetta allt á átta mínútum og hverjar tíu sekúndur umfram gefa refsistig sem gætu kostað titil,“ segir Carlos.

carlos tók þátt í Íslandsmeistaramótinu í Kaffi í góðum vínanda í vor og sigraði þar með glæsibrag. Þar notaði hann ávexti í sigurdrykkinn en vildi breyta til fyrir keppnina í London og skapa sér sérstöðu.

„Ég vildi gera eitthvað íslenskt og datt niður á uppskrift af chili kaffi með tómötum og bjór. Eftir nokkra tilraunastarfsemi gekk drykkurinn upp. Ég vildi fá karlmannlegan drykk og svo er það bónus að hann freyðir. Það er enginn annar að nota tómata eða bjór í drykkinn sinn þannig að með öllu þessu ætti ég að skora einhverja punkta á frumleikanum,“ segir Carlos.

„Ég sá strax að Lava myndi henta í þetta, hann er þéttur í sér og ofboðslega bragðmikill. Hann fer í sömu átt og þau bragðefni sem við setjum í kaffið. Valgeir bruggmeistari í Ölvisholti sannfærði mig um að ég fengi ekkert betra en Lava og það er rétt hjá honum.“

Íslendingar hafa oft náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum kaffibarþjóna en Carlos er eini áhugamaðurinn sem tekur þátt í keppninni. Keppinautarnir eru þrautreyndir kaffibarþjónar en sjálfur starfar hann sem kennari í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Kaffiáhuginn er greinilega mikill í fjölskyldunnni og Carlos grínast með að hann hafi smyglað kaffi í pelann hjá börnunum sínum á unga aldri. „Ég hef sjálfur drukkið kaffi frá því ég var þriggja ára og byrjaði sjálfur að hella upp á fjögurra ára. Þetta verður spennandi keppni þó að ég renni algjörlega blint í sjóinn með þetta. Þarna eru 26 keppendur og ég fer ekki þarna út til að verða tuttugasti. Ég tek stefnuna eitthvað hærra en það, líka til að halda uppi heiðri fjölskyldunnar,“ segir Carlos brosandi að lokum.

Kaffikeppnin hefst í London á morgun en Carlos mun keppa á fimmtudaginn. Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni útsendingu á netinu hér.

Fyrri greinMagnús Þór fékk menningar-verðlaun Hveragerðis
Næsta greinMagurt gegn meisturunum