Opnað hefur verið fyrir almenna veiði í Sauðafellsvatni á Landmannaafrétti frá og með deginum í dag. Um nýtt veiðivatn er að ræða en þrjátíuþúsund seiðum var sleppt í vatnið fyrir rúmum 20 árum.
Greint er frá þessu á veiðivef Morgunblaðsins og í viðtali þar segir Valtýr Valtýsson, stjórnarmaður í Veiðifélagi Landmannaafréttar, að grannt hefði verið fylgst með vatninu hin síðari ár og nú væri það mat manna að gera ætti þessa tilraun.
„Fiskurinn hefur farið stækkandi, sérstaklega síðustu ár og við fengum fiskifræðinga til að rannsaka vatnið, árganga af fiski, fæðu og fleira slíkt og þeirra niðurstaða var afdráttarlaus, að vatnið væri sjálfbært,“ segir Valtýr.
Valtýr segir að fyrsta markmiðið sé að ganga ekki á gæði vatnsins sem stangaveiðivatns og því hafi verið tekin sú ákvörðun að eingöngu er veitt á flugu í vatninu. „Það var niðurstaða stjórnar að selja aðeins fimm stangir í vatnið á dag og er þar tekið mið af ráðleggingum fiskifræðinga. Við viljum byrja rólega og fylgjast með.“