Berglind Kristinsdóttir í Gerðakoti í Ölfusi hefur verið að hekla einstök kúruteppi sem kallast Kúri.
„Ég lærði að hekla fyrir svona þremur árum síðan en maðurinn minn á alfarið frumkvæðið að því að ég byrjaði. Hann var alveg viss í sinni sök að ég yrði góð í því og að mér myndi finnast það skemmtilegt og því var hann alltaf að gefa mér heklbækur og garn þó ég kynni varla að halda á heklunál. Það var síðan einn daginn að hann gaf mér Stóru heklbókina og út frá henni lærði ég grundvallaratriðin og hef síðan kennt mér þetta sjálf,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is.
„Eftir að hafa heklað mörg teppi fyrir ungabörn þá langaði mig að prófa að hekla eitthvað nýtt og var með ákveðna hugmynd í kollinum af svona kúrudýri með mjúku teppi. Ég skoðaði ýmsar uppskriftir en engin var alveg eins og ég sá þetta fyrir mér og hannaði því bara mína eigin uppskrift og til varð Kúri,“ segir Berglind.
Kolkrabbarnir sérstaklega hugsaðir fyrir fyrirbura
„Ég hef ekki auglýst Kúrana mikið fyrir utan á sérstakri Facebook síðu þar sem ég set inn myndir og slíkt af Kúrunum en þetta hefur spurst út og það hefur gengið alveg þokkalega í Kúrasölu. Ætli ég hafi ekki heklað um fimmtíu Kúra síðustu tvö árin ásamt ýmsu öðru eins og snudduböndum, kanínuhringlu og kolkröbbum sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir fyrirbura.“
„Kúri er hugsaður fyrst og fremst fyrir ung börn, jafnt stúlkur sem drengi og alveg frá fæðingu og eins lengi og barnið hefur áhuga á að dröslast með Kúrann sinn. Hugmyndin mín var að Kúri yrði eins og besti vinur barnsins sem gott er að kúra með því hann er bæði mjúkur og hlýr og þaðan kom nafnið Kúri,“ segir Berglind og bætir því við að hún noti eingöngu fyrsta flokks garn í Kúrana sem er einstaklega mjúkt fyrir lítil kríli.
Aukin eftirspurn eftir íslenskum hönnunarvörum
„Mér finnst fólk vera meðvitaðara en áður hvað varðar íslenska framleiðslu og hönnun. Mér finnst margir leita eftir því að fá eitthvað sem er ekki fjöldaframleitt og hægt að kaupa í næstum hvaða verslun sem er. Það liggur nær alltaf mikil vinna á bakvið handverk og efniviðurinn er oft á tíðum mjög dýr. Gott garn í dag er dýrt og eðlilega hefur það áhrif á verðlagningu. Handverksfólk verður að fá eitthvað fyrir vinnu sína og myndi ég vilja sjá að handverk væri meira metið hvað verðgildi varðar. Það er ekki hægt að bera saman fjöldaframleidda vöru við einstakt, handunnið verk,“ segir Berglind að lokum.