Innkoma Costco inn á íslenska olíumarkaðinn hefur valdið straumhvörfum. Olíufélögin hafa öll lækkað verð á nokkrum bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu.
Í frétt frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) um bensínverð segir að landsbyggðin hafi ekki notið góðs af þessari samkeppni olíufélaganna við Costco. Lægsta verðið utan höfuðborgarsvæðisins var um 30 krónum hærra í febrúar en það ódýrasta hjá Costco. Algengasta verðið eru 37,90 krónum hærra en hjá Costco.
„Frá innkomu Costco hafa olíufélögin hækkað álagningu sína á viðskiptavini sem ekki geta notfært sér lægstu verðin á höfuðborgarsvæðinu. Meðalálagningin fór úr tæpum 43 krónum á lítra 2017 í ríflega 48 krónur árið 2019. Þessar tölur eru uppreiknaðar með vísitölu neysluverðs og án virðisaukaskatts. Upp úr vasa neytenda er þetta um 6,20 krónum hærra verð á hvern lítra,“ segir í frétt FÍB.
Landsbyggðin skilin útundan
Í síðustu viku lækkuðu íslensku olíufélögin útsöluverð á bensíni og díselolíu vegna gríðarlegrar lækkunar á heimsmarkaði. Snörp lækkun varð hjá Costco þar sem bensínlítrinn lækkaði um 17 krónur og dísillítrinn um 16 krónur.
Að mati FÍB er hætt við að verðlækkanir aukist eingöngu á völdum bensínstöðvum nærri Urriðaholti í Garðabæ en að stærstur hluti landsins, sérstaklega landsbyggðin, verði skilin útundan líkt og undanfarin misseri.