Litháarnir fjórir sem handteknir voru með fíkniefni í sumarbústað í Árnessýslu í gær hafa verið úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald. Þeir voru með í fórum sínum 375 grömm af kókaíni.
Lögreglan á Selfossi lagði fram kröfu um gæsluvarðhald í fjórar vikur yfir þremur hinna handteknu og í tíu daga yfir einum, en niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands var að úrskurða þá alla í gæsluvarðhald í eina viku.
Rannsókn málsins sé í fullum gangi en hún miðast m.a. að því að komast að því hvernig efnið var flutt til Íslands og hvort mennirnir hafi stundað sölu á fíkniefnum hér á landi. Ekki er komið í ljós hver er styrkleiki kókaínsins sem mennirnir voru með.
Tveir mannanna eru búsettir hér á landi en hinir tveir hafa verið hér í skamman tíma. Fimmti maðurinn var handtekinn í dag vegna málsins en látinn laus að lokinni yfirheyrslu.