Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á annan mann með strákústi á Selfossi.
Atvikið átti sér stað við heimili mannsins í iðnaðarhúsnæði í Gagnheiði. Snemma á laugardagsmorgni í júlí í fyrra hitti ákærði tvo menn í Gagnheiðinni og bauð þeim inn til sín. Mennirnir voru allir drukknir.
Ákærði sagðist hafa komið að fórnarlambinu við verkfæraskáp þar sem hann var að troða inn á sig verkfærum. Bað hann manninn um að tæma alla vasa og kom þá í ljós að hann var búinn að taka síma og veski húsráðanda. Fórnarlambið skilaði góssinu en þegar húsráðandi vísaði manninum út lentu þeir í ryskingum.
Ákærði var með kúbein í höndunum sem fórnarlambið þreif af honum. Ákærði taldi sér ógnað í kjölfarið og greip því strákúst og sló manninn með kústinum. Sá bar hönd fyrir höfuð sér og við höggið brotnaði ulnarbein í handlegg hans auk þess sem hann fékk blæðandi sár á höfuð.
Samkvæmt framburði ákærða braut fórnarlambið rúðu í húsinu og hljóp svo á brott. Hringdi hann þá á lögreglu sem kom á staðinn og fann síðan fórnarlambið og félaga hans skammt frá.
Fórnarlambið gerði kröfu um rúmlega 1,7 milljóna króna skaðabætur vegna árásarinnar. Dómari dæmdi manninn hins vegar til að greiða 150 þúsund krónur í miskabætur auk lögfræðikostnaðar. Þá var maðurinn dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára.