Lithái sem var handtekinn í sumarhúsi í Ölfusi í október grunaður um framleiðslu fíkniefna og síðar úrskurðaður í farbann, hefur flúið land. Þetta er í annað sinn sem maður í farbanni á vegum lögreglunnar á Selfossi fer úr landi.
Maðurinn var auk tveggja landa sinna dæmdur fyrir aðkomu sína að fíkniefnamáli en þeir voru handteknir í sumarhúsi í Ölfusborgum við framleiðslu 374 gramma af kókaíni.
Einn mannanna kannaðist við að eiga efnin og hefur hann verið í gæsluvarðhaldi. Hinir tveir, annar búsettur hér á landi, en hinn gestkomandi hér könnuðust ekki við að hafa vitað eða tekið þátt í framleiðslunni. Þeir voru í gæsluvarðhaldi fram í nóvember en eftir það í farbanni samkvæmt úrskurði héraðsdóms þar um.
Mennirnir tveir sem eru í farbanni hafa mætt reglulega á lögreglustöð til að staðfesta veru sína á landinu. Sá sem búsettur er hér á landi hefur gert það samviskusamlega en hinn mætti þann 13. janúar en kom síðan ekki 15. janúar eins og honum var ætlað.
Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að hann fór með flugi frá Íslandi til Parísar hinn 15. janúar sl. og áfram til Riga sama dag. Áreiðanlegar upplýsingar sem lögregla hefur aflað benda til þess að maðurinn hafi notið aðstoðar erlendis frá við að komast af landi brott, m.a. með því að greitt var fyrir hann flugfargjaldið og séð um flugbókun hans frá landinu. Sá þáttur málsins mun verða rannsakaður áfram.
Þess hefur verið óskað að gefin verði út alþjóðleg handtökuskipun á hendur manninum en ólíklegt verður að telja að hann fáist framseldur frá heimalandi sínu sé hann þar. Hinsvegar mun verða leitað eftir milligöngu innanríkisráðuneytis um að manninum verði gert að afplána fangavist sína í heimalandinu verði niðurstaða Hæstaréttar í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms.
Á það hefur verið bent að farbann er á engan hátt jafn öruggt úrræði og látið hefur verið að liggja. Þetta er í annað sinn sem maður í farbanni á vegum Llgreglunnar á Selfossi fer úr landi. Árið 2007 fór pólskur maður grunaður um nauðgun úr landi. Því máli var reyndar fylgt eftir og hann dæmdur, eftir íslenskri löggjöf, í heimalandi sínu fyrir brotið.