D-listinn leggur til íbúakosningu um miðbæjarskipulagið

Bæjarfulltrúar D-listans í Árborg munu leggja fram tillögu um íbúakosningu um skipulag miðbæjarins á Selfossi á bæjarstjórnarfundi í næstu viku.

„Af frétt Fréttablaðsins í dag má ráða að ábyrgðaraðilar undirskriftarsöfnunar vegna íbúakosningar í Sveitarfélaginu Árborg hyggist ekki skila til bæjarstjórnar þeim gögnum sem þeim ber að gera skv. reglugerð nr. 155/2013 og sveitarstjórnarlögum. Á meðan gögnunum er ekki skilað er bæjarstjórn ekki kleift að sinna skyldum sínum samkvæmt reglugerðinni og taka beiðni um íbúakosningu á grundvelli undirskriftalista til umfjöllunar,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, í tilkynningu sem bæjarfulltrúar D-listans sendu frá sér í dag.

Í frétt Fréttablaðsins er rætt við Davíð Kristjánsson, einn ábyrgðarmanna söfnunarinnar, sem segir það standa í aðstandendum söfnunarinnar að birta lista yfir þá sem skrifuðu undir.

„Hvað sem því líður er ljóst að mikill fjöldi íbúa vill íbúakosningu um skipulagið, sama hvort þeir eru hlynntir því eða ekki,“ segir Ásta ennfremur.

Í ljósi þess munu bæjarfulltrúar D-listans leggja fram tillögu um íbúakosningu um skipulag miðbæjar á næsta bæjarstjórnarfundi og verður framkvæmd hennar samkvæmt 107. gr. sveitarstjórnarlaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal boða til íbúakosninga með minnst fjögurra vikna fyrirvara og um leið skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði. Atkvæðagreiðsla sem þessi er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn, nema annað verði ákveðið.

TENGDAR FRÉTTIR:
„Sigur fyrir íbúalýðræðið“

Fyrri greinÁrekstur á Ölfusárbrú
Næsta grein„Ég ætla að gera betur á næsta ári“