Dæmigerður Suðurlandsskjálfti

Jarðskjálftinn sem varð í Vatnafjöllum sunnan Heklu kl. 13:21 í dag er dæmigerður Suðurlandsskjálfti og sá stærsti síðan 29. maí árið 2008.

Þetta kemur fram á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. Að sögn Einars Sindra Ólafssonar hjá ENSu er ekki hægt að útiloka fleiri stóra skjálfta en allt eins sé líklegt að skjálftavirknin deyji út.

Jarðskjálftinn var 5,2 að stærð og voru upptökin á 5,6 km dýpi. Litlir skjálftar höfðu mælst á svæðinu frá því í hádeginu og einnig hafa nokkrir eftirskjálftar mælst, allt að 3,0 að stærð.

Í Gnúpverjahreppnum féllu smáhlutir úr hillum en ekki hafa borist fréttir af neinum skemmdum vegna skjálftans. Lesendur sunnlenska.is í Rangárvallasýslu lýsa honum þannig að hann hafi verið mjög langur og að hús hafi leikið á reiðiskjálfi.

Lögregla hefur rætt við ábúendur á nokkrum af þeim bæjum sem eru næst upptakasvæðinu og þar ber mönnum saman um að hafa fundið vel fyrir skjálftanum en ekkert tjón hafi orðið.

Lögregla ásamt verkefnisstjóra almannavarna á Suðurlandi mun funda með fulltrúum veðurstofu og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra kl. 15:00 um stöðuna.

 

Fyrri greinStór skjálfti í Vatnafjöllum
Næsta greinÁtta í sóttkví eftir smit á Litla-Hrauni