Dagbók lögreglu: Þrír duttu af baki

Erlendur ferðamaður var kærður fyrir að aka utan vegar við Gígjukvísl. Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri höfðu afskipti af ökumanninum sem viðurkenndi brotið en bar fyrir sig að hann teldi heimilt að aka á auðum sandinum.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Lögreglu bárust tólf tilkynningar um slys á fólki. Þar á meðal voru þrjú hestaslys þar sem knapar féllu af hestum sínum. Önnur slys voru flest vegna þess að fólk hrasaði á göngu á ferðamannastöðum. Í nokkrum tilvikanna hlaust af beinbrot.

Þá kemur fram í dagbókinni að húsleit hafi verið gerð hjá karlmanni á Selfossi vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í vörslum sínum. Hjá honum fundust kannabisefni og duft sem talið er vera amfetamín. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnin.

Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur í vikunni og 78 fyrir hraðakstur.

Fyrri greinSíbrotamaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald
Næsta greinStraumlaust í Rangárþingi