Lögreglan á Suðurlandi kærði 27 ökumenn fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Nú ber svo við að erlendir ferðamenn eru í algerum minnihluta og íslenskir bera ábyrgð á 20 þessara mála.
Sá sem hraðast ók mældist á 132 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Laufskálavörðu þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.
Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að fjögur umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar í síðustu viku. Minniháttar meiðsli urðu í tveimur þeirra.
Annarsvegar var um að ræða aftanákeyrslu við gatnamót Biskupstungnabrautar og Suðurlandsvegar um hádegisbil á fimmtudag. Þar reyndist ökumaður fremri bifreiðarinnar með áverka á hálsi. Hitt slysið varð á föstudagsmorgun þar sem sendibíll og fólksbíll lentu í hörðum árekstri á gatnamótum Álfsstéttar og Eyrarbakkavegar. Ökumenn beggja bifreiða eru lemstraðir eftir en þó ekki alvarlega.