Í síðustu viku fékk lögreglan á Selfossi tilkynningu um innbrot í fjóra sumarbústaði víða í uppsveitum Árnessýslu.
Bústaðirnir fjórir eru í landi Króks í Grafningi, í Miðfellslandi í Hrunamannahreppi, í Svínahlið við Þingvallavatn og í landi Snorrastaða við Laugarvatn.
Úr tveimur bústaðanna var stolið flatskjáum og ýmsum öðrum raftækjum. Einn bústaðanna var í byggingu og úr honum var stolið keðjusög og múrbrotsvél. Þjófavarnakerfi var í einum bústaðanna og fór það í gang. Það hefur líklega fælt þjófinn, eða þjófana, því engu var stolið úr þeim bústað.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar kemur einnig fram að maður kom á lögreglustöðina á Selfossi með fíkniefni í litlum poka sem hann fann við húsvegg á Eyravegi á Selfossi. Ekki er vitað hver átti efnið.
Þá axlarbrotnaði bresk kona í gær er vélsleði fór á hliðina á Langjökli við Skálpanes. Konan var farþegi á sleðanum sem eiginmaður hennar ók. Hjónin voru í vélsleðaferð á vegum vélsleðaleigu.