Dagbók lögreglu: Brotist inn í sjö sumarhús

Um helgina var tilkynnt innbrot í sex sumarbústaði við Fljótsbakka sem er við Úlfljótsvatn á milli Steingrímsstöðvar og Ljósafossvirkjunar í Grímsnesi.

Líkur eru á að innbrotin hafi átt sér stað á tímabilinu frá því síðastliðinn fimmtudag til laugardags. Þjófarnir höfðu á brott ýmiss konar rafmagnstæki svo sem sjónvörp, DVD spilara og uppþvottavél.

Einnig var tilkynnt um innbrot í bústað við Hraunhvarf í landi Klausturhóla í Grímsnesi.

Lögreglan biðlar til þeirra sem veitt geta upplýsingar um þessi innbrot að hafa samband í síma 480 1010.

Á laugardag var tilkynnt um þjófnað á jeppabifreið sem hafði staðið við íbúðarhús á Selfossi viku áður. Eigandi bifreiðarinnar hafði grun um hver hefði tekið bifreiðina. Sá vísaði á hana í Reykjavík þar sem hún fannst óskemmd.

Tvö minni háttar fíkniefnamál komu upp í vikunni sem varða vörslu og neyslu. Málin eru í rannsókn þar sem beðið er niðurstöðu efnarannsóknar.

Lögreglumenn á Selfossi sinntu yfir 130 verkefnum í liðinni viku. Þar á meðal var fjöldi birtinga vegna ákæra, dóma og sektarboða. Einnig eru fjölmörg verkefni sem snúa að því að veita borgaranum þjónustu af ólíklegasta tagi.

Fyrri greinHimneskt hnetusúkkulaði
Næsta greinKröpp lægð nálgast landið í nótt