Á laugardagskvöld var ekið á hross sem var í lausagöngu á Suðurlandsvegi við Gljúfuholt í Ölfusi. Tvö hross voru á veginum en bifreiðin var á austurleið.
Í fyrstu var talið að hrossið hefði fótbrotnað en eftir að dýralæknir hafði skoðað það kom í ljós að svo var ekki. Minniháttar tjón varð á bifreiðinni. Ekki liggur fyrir hvernig hrossin tvö komust inn á veginn en lausaganga búfjár er ekki leyfð á svæðinu.
Nokkuð hefur verið um það að fólk hafi verið að hringja eftir helgina og tilkynna um fokjón. Mest er um það að hlutir hafi fokið á bifreiðar.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur um helgina og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.