Dagbók lögreglu: Féll fram af húsþaki

Maður féll af þaki íbúðarhúss á Selfossi í liðinni viku. Tveir menn voru við vinnu á þakinu og voru á leið niður þegar annar þeirra rann til.

Hinn ætlaði að koma honum til hjálpar en rann þá sjálfur fram af þakbrúninni. Fallið var um þrír metrar. Maðurinn kenndi til í baki og var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna á Selfossi til aðhlynningar.

Um hádegi á laugardag varð slys skammt frá Sólheimakoti í Mýrdalshreppi er tvær erlendar konur veltu snjósleða. Þær voru fluttar til læknis en munu ekki hafa slasast. Þó hlaut önnur þeirra skerta meðvitund en jafnaði sig af því.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að sjö ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni. Sex þeirra voru erlendir ferðamenn á leið um Rangárvalla- og Skaftafellssýslu.

Þrír voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, einn fyrir ölvunarakstur, einn fyrir akstur sviptur ökuréttindum og einn fyrir að hafa ekið án þess að hafa endurnýjað ökuréttindi sín.

Fyrri greinHúsbrot á Selfossi og rúðubrot á Þingvöllum
Næsta greinGönguskíðamenn í vandræðum