Húsleit var gerð í íbúð í fjölbýlshúsi á Selfossi í liðinni viku vegna gruns um að þar væru fíkniefni. Lögreglumenn fundu kannabisefni sem húsráðandi gekkst við að eiga.
Rannsókn málsins var lokið á staðnum og verður sent ákæruvaldi til ákvörðunar.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar segir einnig að jeppabifreið með erlenda ferðamenn hafi oltið á línuvegi á Haukadalsheiði síðdegis á laugardag. Fjórir voru í bifreiðinni og hlutu minni háttar höfuðáverka.
Einn ökumaður var kærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í liðinni viku en hann reyndist auk þess sviptur ökuréttindum og mun fá kæru fyrir það brot einnig.