Undanfarið hafa lögreglumenn á Selfossi farið í eftirlitsferðir á skemmtistaði til að kanna aldur gesta. Í einhverjum tilvikum hafa lögreglumenn hitt á einstaklinga undir aldri á þessum stöðum og í slíkum tilvikum eru leyfishafarnir kærðir.
Auk þessara verkefna hafa lögreglumenn sinnt ýmsu eins og almennu umferðareftirliti, birtingum dóma, fyrirkalla og ákæra. Einnig berast lögreglu margar tilkynningar um sérkennilegt aksturslag ökumanna eða glæfraakstur.
Í dagbók lögreglu kemur fram að slíkum verkefnum sé sinnt eins og kostur er. Stundum kemur í ljós að þar eru á ferð ökumenn sem eru réttindalausir, undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og eiga ekki að vera í umferðinni.