Í síðustu viku kærði lögreglan á Suðurlandi 36 ökumenn fyrir hraðakstur. Eins og oftast voru flestir þeirra teknir í radar lögreglu á Þjóðvegi 1 á milli Víkur og Hafnar.
Sá sem hraðast ók var mældur á 132 km/klst en margir voru á bilinu frá 115 til 128 km/klst. Það er glórulaust á vegi þar sem hættur leynast víða, segir í dagbók lögreglunnar.
Veðrabrigði hafa áhrif á verkefnin einkum þegar veður breytist í skyndingu úr blíðu í norðan byl. Við það fer umferðin úr skorðum og til verða alls kyns óhöpp sem kalla oft á mikinn viðbúnað. Einmitt það átti sér stað á laugardag þegar margir árekstrar, bílveltur og útafakstrar urðu á vegum milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins.
Í dagbók lögreglunnar segir ennfremur að síðustu fjórar vikur hafi reynt mjög á allt lögreglulið lögreglustjórans á Suðurlandi. Framundan sé mikil úrvinnsla vegna þeirra mörgu alvarlegu slysa sem orðið hafa á þessu tímabili. Á fimmtudagskvöld varð banaslys í umferðinni á Biskupstungnabraut, undir Ingólfsfjalli, en það er þriðja banaslysið í umferðinni í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á þessu ári.