Á Selfossi komu upp þrjú minni háttar fíkniefnamál um helgina. Í tveimur tilvikum var grunur um neyslu í heimahúsum en við leit þar fundust áhöld og neysluumbúðir undan kannabisefnum.
Þriðja tilvikið kom upp þegar lögreglumenn óku á eftir bifreið í Gagnheiði. Afturhurð bílsins var opnuð og bréfsnifsi hent út. Innihald þess reyndist ver amfetamín. Farþegi í bifreiðinni viðurkenndi að hafa átt efnið.
Upp komst um fíkniefnaræktun í íbúðarhúsi á Höfn síðdegis á laugardag. Lögreglumenn þar höfðu haft grun um að þar færi fram ræktun og farið var í leitina á forsendum húsleitarheimildar frá Héraðsdómi Suðurlands. Í íbúðinni fundust 16 plöntur sem voru tilbúnar til niðurskurðar og vinnslu. Umráðamaður íbúðarinnar gekkst við ræktuninni. Plönturnar verða sendar til rannsóknar hjá Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Buster, fíkniefnahundur lögreglunnar á Suðurlandi, og þjálfari hans voru á Höfn um helgina við fíkniefnaeftirlit á humarhátíðinni. Enginn fannst með fíkniefni á hátíðinni sem fór mjög vel fram í alla staði.
Átta slys voru skráð í síðustu viku. Í einu tilvikanna brenndist maður á ökkla. Hann hafði verið á gangi við hverinn Skjól ofan við sundlaugina í Hveragerði þegar jarðvegurinn gaf sig og fóturinn sökk í leirhver sem leyndist undir.
Einn ökumaður var kærður fyrir ölvunarakstur, einn fyrir fíkniefnaakstur og 77 fyrir hraðakstur.