Ellefu ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í liðinni viku. Sá sem ók hraðast var mældur á 122 km hraða við Berjanesfitjar.
Samtals voru 55 mál bókuð hjá lögreglunni á Hvolsvelli þessa vikuna.
Tilkynnt var um sinubruna við Árbæjarhelli í Holtum. Slökkviliðið á Hellu var ræst út og slökkti eldinn. Ekki er vitað um að tjón hafi orðið við þetta.
Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Tvö þeirra voru minniháttar. Bifreið fór út af Suðurlandsvegi við Móeiðarhvolsafleggjara og valt. Talið er að hálka á veginum hafi átt þátt í að óhappið varð. Ökumaður bifreiðarinnar kenndi sér eymsla m.a. í baki. Bifreiðin mun hafa skemmst talsvert.
Annars var vikan mjög góð í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli. Jólahlaðborð hafa verið haldin víða og farið vel fram og enginn var tekinn fyrir ölvunarakstur í vikunni.