Í síðustu viku barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um þjófnað á vélsleða þar í bæ.
Málið upplýstist nokkrum dögum síðar er í ljós kom að um hrekkjabragð félaga eigandans var að ræða.
Í dagbók lögreglu er þeim sem hafa slík hrekkjabrögð í huga bent á að gera þau með þeim hætti að þau hafi ekki áhrif á störf og verkefni lögreglu sem í þessu tilviki lagði tíma í rannsókn vegna hvarfsins.
Annars var nóg að gera hjá Selfosslögreglu í síðustu viku. Á föstudag og sunnudag var farið í eftirlit um láglendi og hálendi í þyrlu Landhegisgæslunnar. Mikil umferð var á svæðinu sem gekk mjög vel.
Afskipti voru höfð af nokkrum ökumönnum þar sem ástand þeirra var kannað. Allir reyndust í lagi utan einn sem í mældist lítið eitt af áfengi í blóði. Einn var kærður fyrir hraðakstur.
Lögreglan segir þyrlueftirlitið mjög mikilvæga forvörn en með lögreglu og Landhelgisgæslu hefur þróast gott verklag við eftirlitið og segir lögreglan samstarfið við Gæsluna frábært.
Tilkynnt var um innbrot og eignaspjöll í tvo sumarbústaði í vikunni. Engu var stolið en talsvert tjón unnið á húsum og búnaði. Annar bústaðurinn er við Laugarvatn en hinn í Úthlíð.
Innbrotin hafa átt sér stað á tímabilinu frá 1. júlí til 12. júlí og eru þau óupplýst.