Ungur karlmaður var handtekinn á Selfossi í síðustu viku með smávegis magn af kannabis. Hann viðurkenndi að eiga efnið.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Karlmaður slasaðist alvarlega á hendi í Sveitarfélaginu Hornafirði síðastliðinn miðvikudag. Slysið varð með þeim hætti að verið var að draga vörubifreið úr festu þegar krókur dráttarbifreiðarinnar slitnaði frá henni og skaust af miklu afli inn um afturrúðu vörubifreiðarinnar og lenti á hendi ökumannsins með þeim afleiðingum að hann skaðaðist illa á fingrum. Maðurinn var fluttur á heilsugæslustöðina á Höfn til aðhlynningar.
Um helgina höfðu lögreglumenn á Höfn afskipti af skemmtistað þar sem dansleikur stóð yfir eftir klukkan þrjú. Forstöðumanninum var gert að stöðva skemmtunina og rýma húsið.
Tveir eigendur ökutækja voru kærðir fyrir að aka um á ótryggðum bifreiðum. Sekt við slíku broti er 30 þúsund krónur.
Í ágúst og september hafa lögreglunni á Suðurlandi borist 46 tilkynningar um að ekið hafi verið á búfé. Um helmingur tilvikanna var á starfssvæði lögreglumanna á Höfn í Hornafirði. Ökumenn eru beðnir að gæta vel að búfé við þjóðvegi á leið sinni um þá.