Svartur hestur varð fyrir bifreið á Suðurlandsvegi í Flóa fyrir birtingu síðastliðinn föstudag. Bifreiðin skemmdist nokkuð en hrossið hélt áfram út í myrkrið að því er virtist ómeitt.
Þrjú önnur minni háttar umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu.
Eldur kom upp í sinu austan við Stokkseyri á laugardagskvöld. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu slökktu eldinn sem reyndist vel viðráðanlegur.
Húsleit var gerð hjá tveimur ungum karlmönnum um helgina eftir að fíkniefnahundurinn Buster merkti lykt fyrir utan íbúð þeirra á Selfossi. Hjá öðrum þeirra fannst tóbaksblandað hass en hinn var með nokkuð af kannabis innan klæða.
Í síðustu viku bárust níu kærur vegna þjófnaða og eignaspjalla af ýmsu tagi.