Aðfaranótt laugardags var óskað eftir aðstoð lögreglu á Hótel Örk í Hveragerði vegna manns sem þar var til vandræða sökum ölvunar.
Við komu lögreglu á hótelið lét maðurinn öllum illum látum og neitaði meðal annars að gera fullkomlega grein fyrir sér. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu þar sem hann svaf úr sér áfengisvímuna.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar má einnig lesa um þrjú minniháttar fíkniefnamál sem komu upp um helgina. Í einu tilviki voru höfð afskipti af ökumanni sem var með hvítt efni á sér. Húsleit var gerð hjá öðrum manni á Selfossi og hjá honum fannst smávegis af kannabisefnum. Sá þriðji var handtekinn á götu á Selfossi og hann var með nokkur grömm af kannabis.
Þá stóðu lögreglumenn á eftirlitsferð á skemmtistað á Selfossi afgreiðslumann að því að selja tveimur mönnum undir tvítugu áfengi af bar. Það mál er í rannsókn.