Fremur rólegt var hjá lögreglunni á Selfossi um helgina. Síðdegis í gær slasaðist kona þegar hún hrasaði á göngu í Kerinu í Grímsnesi.
Hún var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið en talið var að hún hefði ökklabrotnað.
Lögreglumenn höfðu afskipti af konu á Selfossi vegna kannabisefna sem hún hafði í vörslu sinni og til eigin neyslu að hennar sögn.
Í síðustu viku voru 20 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, einn fyrir ölvun við akstur og einn fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Um þessar mundir er starfsemi skólanna að komast í fullan gang sem þýðir að umferð við skóla eykst verulega. Ökumenn, hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur ættu nú sem endranær að sína hver öðrum tillitssemi í umferðinni og gæta fyllstu varúðar á ferðum sínum.