Lögreglan á Suðurlandi kærði þrjá ökumenn í síðustu viku fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Þar má einnig lesa um 21 stórt ökutæki sem skoðað var í svokallaðri vegaskoðun í síðustu viku. Þær skoðanir voru nær allar athugasemdalausar en einn bíll var boðaður í skoðun vegna athugasemda sem gerðar voru í vegaskoðuninni.
Lögreglan fór einnig í eftirlitsferðir til að fylgjast með rjúpnaveiðimönnum. Nokkur fjöldi var á ferðinni en veiði almennt dræm og lítið af fugli.