Ökumaður hlaut minniháttar meiðsli þegar hann ók útaf og á umferðarmerki við gatnamót Skeiðavegar og Suðurlandsvegar í morgun.
Þetta var eitt af sextán umferðaróhöppum sem tilkynnt voru til lögreglunnar á Selfossi á einni viku. Slys urðu á fólki í fjórum þeirra.
Í liðinni viku voru 23 kærðir fyrir of hraðann akstur í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Tveir þeirra óku það hratt að þeir verða sviptir ökurétti.
Einn var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti og annar reyndist án ökuréttinda en hann hafði gleymt að endurnýja þau þegar gildistími skírteinisins rann út. Þá voru tveir kærðir fyrir að aka fram úr öðru ökutæki þar sem bann er við framúrakstri.