Fjölmörg verkefni komu til úrlausnar lögreglunnar á Selfossi í liðinni viku. Níu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni og tveir fyrir ölvunarakstur.
Í síðustu viku bárust tvær tilkynningar um minni háttar líkamsárásir, eitt innbrot í sumarbústað í Grímsnesi og rúðubrot í bíl í Gagnheiði á Selfossi. Þá yfirgáfu leigendur orlofshúss húsið með því að sprauta dufti úr slökkvitæki um allt hús.
Eldur kviknaði í gömlum jeppa á Bjarnastöðum í Ölfusinu á fimmtudagskvöld. Verið var að rífa jeppann niður í varahluti þegar neistar frá slípirokk kveiktu eldinn. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn og Hveragerði slökktu eldinn sem barst í sinu og að verkfæraskemmu. Ekki varð tjón á skemmunni.
Fjölmörg verkefni önnur komu til úrlausnar. Má nefna hávaða frá íbúð, ágreining á milli aðila sem hefur verið áberandi í haust vítt og breitt um sýsluna. Þau verkefni geta verið mjög tímafrek. Lögreglumenn hafa verið að fara í eftirlitsferðir á reiðhjólunum sem gefin voru fyrir stuttu og mikil ánægja með það.