Síðastliðinn föstudag var tilkynnt til lögreglu að fólksbifreið hefði verið stolið í Hveragerði fyrr um nóttina. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fann bílinn á föstudaginn og komst hann óskemmdur í hendur eiganda síns.
Snemma á föstudagsmorgun komu tveir menn í bensínstöð í Breiðholti og tóku bensín á bifreiðina. Þeir fóru inn í bensínstöðina og ætluðu að kaupa vörur en árvökull starfsmaður sá að ekki var allt með felldu og tók greiðslukortið af mönnunum.
Síðar um daginn stöðvuðu lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu akstur bifreiðarinnar og reyndist ökumaðurinn sviptur ökuréttindum og var að auki eftirlýstur af lögreglu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi. Þar segir einnig frá því að í síðustu viku voru skráð fimm slys, öll í Árnessýslu. Flest þeirra voru vegna hálku.
Lögreglumenn voru kallaðir til vegna fjórtán umferðaróhappa.
Sex ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.