Í síðustu viku kærði lögreglan á Suðurlandi 29 ökumenn fyrir hraðakstur. Erlendir ferðamenn voru þar í meirihluta.
Um helgina hafði lögregla afskipti af fimm ökumönnum vegna gruns um ölvunarkastur og einum ökumanni sem talið var að hefði verið undir áhrifum fíkniefna.
Aðfaranótt sunnudags veittu lögreglumenn athygli bifreið sem var ekið um Hrunamanna- og Skeiðaveg við Sandlækjarholt. Ökumanni var gefið stöðvunarmerki en um leið og hann stöðvaði bifreiðina stukku tveir menn út úr bifreiðinni og hurfu út í myrkrið.
Annar þeirra fannst skömmu síðar í felum í útihúsi á bæ skammt frá og hinn fannst fljótlega á gangi á þjóðveginum. Báðir mennirnir voru handteknir og yfirheyrðir á lögreglustöð. Blóðsýni var tekið frá báðum mönnunum og er beðið niðurstöðu rannsóknar á þeim.
Þá slasaðist eldri kona þegar hún datt í hálku við Gullfoss síðastliðinn fimmtudag. Konan ökklabrotnaði og var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild.