Tvö umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli í síðustu viku. Ekki urðu meiðsli á fólki en eignatjón var mikið.
Á fimmtudagsmorgun valt bílaleigubifreið á Suðurlandsvegi við Hemlu eftir að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í hálku. Ökumaður og farþegi hans sluppu án meiðsla en bifreiðin mikið skemmd eftir.
Snemma á laugardagsmorgun var ekið á hross á Fljótshlíðarvegi. Hrossið þurfti að aflífa og bifreiðin skemmdist mikið.
Annars var liðin vika með rólegasta móti hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Þrjú þorrablót voru um helgina og fóru þau öll vel fram og án afskipta lögreglu en veðrið lék ekki við þorrablótsgesti þar sem rok og rigning var á svæðinu.