Dagbók lögreglu: Vatnavextir og ölvunarakstur

Vikan var frekar róleg hjá lögreglunni á Hvolsvelli en samtals voru skráð mál í dagbók lögreglunnar 40 að tölu.

Mikið rigndi í vikunni og bárust tvær beiðnir vegna bifreiða sem höfðu fest sig, en vatnavextir voru í ám vegna þessa. Annað tilfellið var við Kötlujökul og fór Björgunarsveitin Víkverji til aðstoðar. Seinna tilvikið var í Stakkholtsánni á leið í Þórsmörk. Aðstoð var þar afþökkuð þar sem vegfarendur komu til hjálpar. Í báðum tilfellum fór allt vel og engin slys urðu á fólki.

Um síðustu helgi var ökumaður stöðvaður vestan við Hellu, grunaður um ölvun við akstur. Mál hans er til rannsóknar en hann fékk að sofa úr sér ölvímuna í fangageymslum lögreglunnar.

Sex umferðarlagabrot voru kærð hjá lögreglunni í þessari viku en af þeim voru fjórir stöðvaðir fyrir að aka of hratt. Svo virðist sem bæði hafi dregið úr umferð og einnig að hraðinn hafi minnkað.

Fyrri greinBátasmíði í rigningu
Næsta greinÞjófur og þýfi fundust fljótt