52 bókanir voru í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli í síðustu viku og talsverður erill var í umdæminu alla síðustu viku.
Tilkynnt var um utanvegaakstur við Sólheimajökul í upphafi vikunnar og er málið í rannsókn.
Óveður gerði nokkurn usla á svæðinu í síðastliðinni viku, en snjór orsakaði þungfærð í V- Skaftafellssýslu, nokkuð var um að bílar væru að fara út af veginum við Pétursey. Einnig varð gríðarlega hvasst undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum, en fólk var vel undir það búið og ekki varð mikið um að lausir munir færu á ferðalag í vindinum.
Slökkvilið Brunavarna Rangárvallasýslu var kallað að sinubruna í héraðinu á laugardag, en betur fór en á horfðist í fyrstu þar sem litlu munaði að eldur færi í íbúðarhús. Kveikt hafði verið á ein nota grilli í veðurblíðunni, sem datt á hliðina með áður greindum afleiðingum.
Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kölluð að Hvanngili vegna veikinda, aðfaranótt sunnudags þar sem sjúkrabíll komst ekki sökum færðar. Einn aðili var fluttur til Reykjavíkur undir læknishendur.