Dagbók lögreglunnar: Af nægu að taka en helgin fór vel fram

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verslunarmannahelgin fór nokkuð vel fram á Suðurlandi að sögn lögreglunnar á Suðurlandi þó af nægu hafi verið að taka í þessu stóra umdæmi.

Tíu umferðaróhöpp voru skráð hjá lögreglunni og urðu minniháttar meiðsli í þremur þeirra. Síðastliðinn fimmtudag féll maður á mótorhjóli á Suðurlandsvegi við Landvegamót. Hjólið skemmdist mikið og er mögulega ónýtt en ökumaðurinn slapp óbrotinn en verkjaður og aumur.

Lögreglan kærði 64 ökumenn fyrir að aka of hratt. Álagðar sektir vegna þessara brota nema rúmum 5 milljónum króna. Um 40% þessara ökumanna voru erlendir ferðamenn og 60% eru Íslendingar.

Þúsundir stöðvaðir á umferðarpóstum
Svokallaðir umferðarpóstar voru settir upp víðsvegar um umdæmið. Þar var kappkostað að stöðva alla umferð og láta ökumenn blása í áfengismæli, ásamt því að kanna með réttindi þeirra og ástand ökutækja. Ekki liggur fyrir talning á öllum þeim sem lögregla hafði afskipti af en reikna má með að þeir skipti þúsundum frekar en hundruðum og langflestir voru með allt á hreinu.

Þrjátíu ökumenn voru stöðvaðir við ölvunarakstur og fjórir undir áhrifum fíkniefna eða lyfja. „Það verður að teljast mikilsvert að þessir aðilar hafi ekki fengið að aka óáreittir en besta staðan hefði þó verið að engin hefði farið af stað nema allsgáður,“ segir í dagbók lögreglunnar. Fjórir ökumenn reyndust vera að aka sviptir ökurétti og tveir með útrunnin ökuréttindi.

Fimm fíkniefnamál
Lögreglan hafði afskipti af fimm einstaklingum sem reyndust vera með fíkniefni í fórum sínum, í öllum tilvikum var um neysluskammta að ræða þar sem magnið var lítið. Fjórir voru kærðir fyrir ölvun og óspektir á almannafæri og einhverjir þeirra fengu að gista hjá lögreglunni þar til mesti móðurinn var runninn af þeim.

Tvö heimilisofbeldismál komu upp og fara þau í sinn venjubundna farveg hjá lögreglu og viðkomandi félagsmálayfirvöldum.

Takk fyrir það
„Þrátt fyrir ofangreindan lista er staðan samt þannig að engin er alvarlega slasaður í allri þessari umferð og fyrir því eru þrjár megin ástæður. Sýnilegt eftirlit lögreglu skilar árangri. Bætt umferðarmannvirki sem ekki refsa mönnum fyrir að gera mistök skipta miklu máli og það sem öllu skiptir, lang flestir ökumenn sameinuðust í því að fara varlega og fylgja umferðarreglum. Takk fyrir það,“ segir lögreglan að lokum í dagbókinni.

Fyrri greinKvenfélögin hafa miklar áhyggjur af stöðu heilsugæslunnar
Næsta greinMótmælir harðlega breyttum opnunartíma sundlaugarinnar