Hlustendur Suðurlands FM kusu Dagnýju Magnúsdóttur, listakonu í Þorlákshöfn, Sunnlending ársins 2011.
Dagný rekur listasmiðjuna Hendur í höfn í Þorlákshöfn og í vetur hrinti hún af stað verkefni til styrktar Guðmundi Felix Grétarssyni, sem safnar nú fyrir handaágræðslu í Frakklandi. Verkefni Dagnýjar nefnist Handarför í sandinn en hún hannaði sérstakar glerskálar og rennur allur ágóði af sölu þeirra til Guðmundar. Fyrir jól hafði Dagný selt skálar fyrir u.þ.b. eina og hálfa milljón króna og hún hyggst halda áfram að framleiða skálarnar og selja á meðan söfnun Guðmundar stendur yfir.
Úrslitum í kosningunni var lýst í áramótaþætti Suðurlands FM í dag. Þar fóru fjölmiðlamenn yfir liðið ár auk þess sem sveitarstjórnarmenn og Alþingismenn rifjuðu upp árið 2011 og spáðu í það næsta.
Auk þess að kjósa Sunnlending ársins þá kusu hlustendur íþróttamann og íþróttakonu ársins. Þar urðu handboltamaðurinn Þórir Ólafsson og frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir hlutskörpust.