Matvælastofnun hefur lagt dagsektir á bónda á Suðurlandi vegna aðbúnaðar nautgripa og sauðfjár á bænum. Um endurtekið brot er að ræða án þess að kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafi verið virtar.
Matvælastofnun krafðist úrbóta á búinu í lok síðasta árs vegna útigangs nautgripa og aðbúnaðar í fjárhúsum og fjósi. Við eftirlit í janúar og mars hafði úrbótum ekki verið sinnt nema að hluta.
Sektin nemur 15 þúsund krónum á dag, frá og með þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem aðstæðum og aðbúnaði dýranna er fullnægt að mati Matvælastofnunar.